LEIÐBEININGAR

ÍSETNING GLERS Í TRÉGLUGGA

VERKLÝSING GLERJUNAR Á TRÉGLUGGUM

Glerjunarborðar eru settir í fals að innanverðu alveg á innbrún glugga (þykkt borða ræðst af heildarþykkt glers og dýpt á falsi). Oft er nauðsynlegt að glerjunarborðar séu misþykkir, eftir mismunandi þykkt glers

Sílikonkítti er síðan sprautað að glerjunarborðunum, falsmegin við borða. Gæta skal þess að setja hæfilegt magn

Sérstakir plastklossar sem taka upp skáa að neðan eru síðan lagðir í fals að neðanverðu (þessa plastklossa eiga glerverksmiðjur að útvega með glerinu)

Gler er sett í gluggann og pressað hæfilega í falsið. Undirlista er komið fyrir, síðan hæðarlista og loks yfirlista sem gengur á milli hæðarlista

Best er að festa listana með koparskrúfum (4.0 x 35 mm) eða ryðfríum nöglum (A-4). Gæta skal þess að gera þetta með nógu stuttu millibili til að glerið þrýstist jafnt í kíttið

ÍSETNING GLERS Í ÁL-TRÉGLUGGA

VERKLÝSING GLERJUNAR Á GLUGGUM MEÐ ÁLKÁPU

Glerjunarborðar eru settir í fals að innanverðu, alveg á innbrún tréglugga (þykkt borða ræðst af heildarþykkt glers og dýpt á falsi). Ávallt skal gæta þess að gler sé slétt við nef á tréglugga þegar rúða er komin í fals og pressa komin á glerið. Oft er nauðsynlegt að glerjunarborðar séu misþykkir, eftir mismunandi þykkt glers. Ítreka skal að þörf er á nákvæmni þegar kemur að glerjunarborðum

Sílikonkítti er síðan sprautað að glerjunarborðum, falsmegin við borða. Gæta skal þess að setja hæfilegt magn. Sérstakir plastklossar sem taka upp stall að neðan eru síðan lagðir í falsið að neðanverðu. Þessa plastklossa eiga glerverksmiðjur að útvega með gleri, ef ekki þá eru þeir til hjá okkur

Gler er sett í gluggann og best er að festa það til bráðabirgða með krossviðarkubbum sem skrúfaðir eru framan á nef gluggans. Gæta skal þess að gera þetta með nógu stuttu millibili til að glerið þrýstist jafnt í kíttið

Þar sem eru opnanleg fög úr áli/tré, eða hurðakarmar úr áli sem ganga í tréglugga, skal gera það sama og segir um glerjun hér að ofan, nema að sleppa skal gúmmíborða og nota eingöngu hæfilegt magn af kítti

Undirlisti úr áli er settur á gluggann. Fyrst lóðréttur listi, síðan láréttir út frá honum og svo lóðréttur, þannig að láréttu listarnir komi alltaf á milli og myndi stýringu fyrir þá lóðréttu. Athugið að undirlisti er ávallt styttri en yfirkápa og við staðsetningu á láréttum listum skal gæta þess að yfirkápa komist fyrir. Á útkanta koma 50 mm listar og á pósta 60 mm listar. Ef flasningar eða aðrar lokanir þurfa að koma undir álkápu þá er best að koma þeim fyrir áður en állistarnir eru settir á gluggann

Skrúfa skal undirkápu með u.þ.b. c/c. 300 mm. Alltaf skal vera skrúfa á endum og ef gat vantar þarf að bora fyrir því. Bora skal fyrir skrúfu í tréglugga. Ávallt skal nota skrúfur sem fylgja klæðningu og engar aðrar (það er nauðsynlegt vegna ryðmyndunar)

Að lokum er yfirkápu smellt yfir undirlistann. Þetta má gera við lok byggingartíma svo yfirkápa verði ekki fyrir óþarfa álagi af múrhúðun og öðru hnjaski á byggingartímanum