Skilmálar þessir eru þeir söluskilmálar sem vísað er til í tilboðum og reikningum Kamba Byggingarvara ehf. og gilda um viðskipti Kamba Byggingarvara ehf. við viðskiptamenn sína (hér eftir vísað til þeirra sem „verkkaupa“) í tengslum við þær vörur sem tilboð eða reikningar Kamba Byggingarvara ehf. vísa til eða eiga við um (hér eftir vísað til þeirra sem „vörunnar“). Samþykki verkkaupi tilboð eða með öðrum hætti kaup á vörum frá Kömbum Byggingarvörum ehf. samþykkir hann jafnframt eftirfarandi skilmála:
Varan og tilboð
1.1. Varan er stöðluð framleiðsla í samræmi við þá staðla og aðferðir sem Kambar Byggingarvörur ehf. ákveður og verkkaupi hefur kynnt sér og samþykkir. Sérstaklega er bent á leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar, RB-blaða og íslensk lög og reglugerðir varðandi frágang og ísetningu vörunnar
1.2. Verkkaupa ber að rýna og staðfesta tilboð. Öll framleiðsla er í samræmi við staðfest tilboð
1.3. Eingöngu það sem fram kemur á tilboði er innifalið en ekki hugsanlega afleiddur kostnaður verkkaupa svo sem framkvæmdakostnaður, en takmarkast ekki við hann
1.4. Öll tilboð sem Kambar Byggingarvörur ehf. gerir eru gerð með fyrirvara um verðbreytingar sem kunna að verða á byggingarvísitölu, gengi gjaldmiðla og almennri verðlagsþróun frá tilboðsdegi til og með greiðsludegi
1.5. Varan verður ekki eign verkkaupa fyrr en hún hefur verið greidd að fullu og öllu leyti
1.6. Sé ekki samið um annað í tilboði greiðist 30% staðfestingargjald við undirritun eða staðfestingu tilboðs. Eftirstöðvar, þ.e.a.s. 70%, greiðast fyrir afhendingu
1.7. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga reiknings hjá aðilum í reikningsviðskiptum
Afhending
2.1. Afhending vörunnar skal miðast við uppgefinn afgreiðsludag í tilboði. Afhending er í samræmi við staðfesta pöntun
2.2. Afgreiðsludagur sem ákveðinn er í tilboði er aðeins áætlaður en ekki skuldbindandi og er háður til dæmis stöðu flutninga, verkefna- og/eða hráefnisstöðu Kamba Byggingarvara ehf. hverju sinni
2.3. Kambar Byggingarvörur ehf. er ekki skylt að bæta kostnað eða tjón sem af kann að hljótast ef raunverulegur afgreiðsludagur fer fram yfir áætlaðan, uppgefinn afgreiðsludag í tilboði
2.4. Innan 3 daga frá afhendingu skal verkkaupi hafa skoðað vöruna með þeim hætti sem góðar venjur standa til. Séu athugasemdir gerðar við vöruna eða verkkaupi telur íhluti vanta skal það tilkynnt Kömbum Byggingarvörum ehf. innan þeirra 3 daga sem verkkaupi hefur til að skoða vöruna samkvæmt þessari grein
2.5. Sé varan afhent verkkaupa í gámi á afhendingarstað skal verkkaupi, þrátt fyrir það sem fram kemur í grein 2.4 að framan, skoða vöruna á afhendingardegi og tilkynna Kömbum Byggingarvörum ehf. um alla augljósa galla sem koma í ljós áður en varan er tekin úr gámnum, svo sem galla í pökkun o.þ.h., samdægurs og afhending á sér stað
2.6. Vara telst eign Kamba Byggingarvara ehf. þar til hún er að fullu greidd eða samkomulag hefur verið gert um greiðslutilhögun vöru
Ábyrgð
3.1. Varan er á ábyrgð Kamba Byggingarvara ehf. þangað til hún er afhent á þeim afhendingarstað sem ákveðinn er í tilboði. Í kjölfar afhendingar ber verkkaupi fulla ábyrgð á öllu tjóni eða rýrnum sem varan kann að verða fyrir
3.2. Sé afhendingarstaður ákveðinn á starfsstöðvum Kamba Byggingarvara ehf. áskilur Kambar Byggingarvörur ehf. sér rétt til þess að leggja á verkkaupa gjald fyrir geymslu vörunnar, hafi verkkaupi ekki sótt hana 10 dögum eftir að honum hefur sannarlega verið tilkynnt um að varan eða hluti hennar sé tilbúinn til afhendingar. Geymslugjald skal vera 1.500 kr. á dag
3.3. Sé afhendingarstaður ákveðinn hjá Eimskip Sundahöfn þá eru geymslugjöld rukkuð eftir gjaldskrá Eimskip. Gjaldskrá Eimskip kveður á um að rukkun hefjist 14 daga eftir að var kemur í vöruhús Eimskip.
3.4. Sé afhendingarstaður ákveðinn á starfsstöðvum Kamba Byggingarvara ehf. og hafi varan ekki verið sótt innan 3 mánaða frá því að verkkaupa var sannarlega tilkynnt um að varan væri tilbúin til afhendingar, áskilur Kambar Byggingarvörur ehf. sér rétt til þess að farga vörunni á kostnað verkkaupa. Hafi vörunni verið fargað samkvæmt skilmálum þessum ber verkkaupa engu að síður að greiða vöruna að fullu samkvæmt samþykktu tilboði
3.5. Kambar Byggingarvörur ehf. veitir ábyrgð á göllum sem kunna að koma upp eingöngu með afhendingu nýs hlutar eða viðgerðar á hlut. Er það á valdi Kamba Byggingarvara ehf. að ákveða hvor leiðin er farin og skal Kambar Byggingarvörur ehf. ekki bera neina ábyrgð á kostnaði sem kann að hljótast af því að skipta út vöru eða gera við hana og gildir það um hvers kyns afleiddan kostnað, hverju nafni sem hann nefnist. Kömbum Byggingarvörum ehf. skal gefinn sanngjarn frestur til þess að afhenda nýjan hlut eða gera við gallaðan hlut og áætlar Kambar Byggingarvörur ehf. að slíkt sé gert innan 30 virkra daga frá því tilkynnt hefur verið um galla með sannanlegum hætti
3.6. Tjón eða galla sem rekja má til ísetningar eða meðferðar vöru eftir afhendingu á afhendingarstað samkvæmt tilboði er undanskilið ábyrgð. Ábyrgð gagnvart fúa eða öðrum skemmdum vegna veðrunar er háð því að Kambar Byggingarvörur ehf. hafi yfirborðsmeðhöndlað vöruna að öllu leyti
3.7. Endurnýjun eða útskipti vara vegna galla endurnýjar ekki ábyrgðartíma
3.8. Ábyrgðartími er 5 ár og hefst við afhendingu vöru á þeim afhendingarstað sem ákveðinn er í tilboði
3.9. Ábyrgð nær aðeins til verkkaupa og skulu öll samskipti fara fram í gegnum hann. Öll samskipti skulu vera skrifleg. Upplýsingar milli aðila gefnar í gegnum síma, og kostnaður vegna mistaka sem af því hlýst, er alltaf alfarið á ábyrgð viðkomandi verkkaupa
3.10. Skilyrði þess að ábyrgð Kamba Byggingarvara ehf. samkvæmt skilmálum þessum verði virk er að geymsla og meðhöndlun vörunnar hafi verið með viðeigandi hætti eftir afhendingu á afhendingarstað og að ísetning, viðhald og aðrar framkvæmdir með vöruna í kjölfar afhendingar hafi verið og séu í samræmi við kröfur Kamba Byggingarvara ehf. eða framleiðenda og að hún sé unnin af fagmanni, viðurkenndum af Kömbum Byggingarvörum ehf. eða framleiðanda. Kambar Byggingarvörur ehf. ber ekki ábyrgð á vinnubrögðum þriðja aðila, svo sem verktaka/iðnaðarmanna, einstaklinga eða fyrirtækja, jafnvel þó Kambar Byggingarvörur ehf. kunni að hafa bent á viðkomandi til að annast verkefni. Auk þess er það forsenda ábyrgðar Kamba Byggingarvara ehf. að verkkaupi hafi staðið að fullu við allar greiðslur vegna vörunnar
Nýjasta útgáfa upplýsinga á vef Kamba Byggingavara ehf. gildir hverju sinni og falla eldri útgáfur úr gildi sjálfkrafa